hux

Öðrum fórst en ekki þér, Össur

Ég trúði ekki mínum eigin eyrum þegar ég heyrði að Össur Skarphéðinsson, af öllum mönnum, hefði farið gegn formanni sínum og Guðrúnu Ögmundsdóttur og kallað það "léttan skandal" að kærasta sonar Jónínu Bjartmarz hefði fengið ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi. En Össur, hin tifandi tímasprengja í kosningabaráttu Samfylkingarinnar, stóðst ekki mátið þegar hann sá tækifæri á að komast þarna aðeins í fréttirnar.

Ingibjörg Sólrún tók málefnalega og vandaða afstöðu til málsins í kvöldfréttum og sýndi að hún er ábyrgur stjórnmálaleiðtogi. Guðrún Ögmundsdóttir hefur talað um málið sem "storm í vatnsglasi" og sagði í kvöld að stúlkan hefði frekar goldið en notið tengslanna hefðu þau legið fyrir. Bjarni Ben. sagðist ekki gera Össuri til geðs að virða þetta upphlaup hans svars.

Ég sagði Össur af öllum mönnum og það kallar á útskýringar. Önnur skýringin er sú að Össur hefur þráfaldlega stært sig af því að hafa notið sértakrar fyrirgreiðslu af hálfu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, þegar hann var að ættleiða dóttur sína frá Kólumbíu. Þetta hefur hann m.a. gert með þessum orðum á heimasíðu sinni

Birta hvessti á hann augun og mótuð af umræðunni spurði hin tæra barnssál: "Er Davíð vondur maður?" Ég tók á allri minni rökfræðilegu snilld til að skýra út fyrir barninu að hann væri alls ekki vondur maður nema síður væri. Hann hefði meira að segja reynst henni vel þegar hún var ómálga barn útí Kolombíu og við lentum í klemmu.

Var þetta líka léttur skandall Össur? Ef ekki, hver var þá munurinn? Er hann ekki helstur sá að í þínu tilviki liggur fyrir að fyrirgreiðsla var veitt. Stóð sú fyrirgreiðsla öllum öðrum sem lent hefðu í sömu sporum jafngreiðlega til boða? Í tilviki Jónínu liggur fyrir að fyrirgreiðsla var ekki veitt, samkvæmt því sem þeir sem ákvörðunina tóku segja sjálfir.

Hin skýringin kemur svo hér: Rifjum upp þessi ummæli Össur Skarphéðinssonar á alþingi í umræðum um fjölmiðlamálið. Þá var hann að skiptast á orðum við Davíð Oddsson, velgjörðarmann fjölskyldu hans, eftir að Davíð hafði farið orðum um tengsl dóttur forseta Íslands við Baug. Össur sagði:

Við lendum oft í pólitísku skaki, alþingismenn, en eitt er það sem við höfum aldrei gert og aldrei farið yfir þau mörk, fjölskyldur okkar eru friðhelgar, börn okkar eru friðhelg. Menn tala ekki um börn alþingismanna og stjórnmálamanna og draga þau inn í umræðu eins og hæstv. forsrh. gerði í gær. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er ég hjartanlega sammála þér Pétur. Mér fannst þetta 1) frekar taktlaust 2) ekki klókt pólitískt séð og 3) bera vott um ákveðna tækifærismennsku. Bæði ég og minn ektamaki vorum nákvæmlega sömu skoðunar í þessu máli þegar við sátum og horfðum á þessa frétt í sjónvarpinu (við erum nota bene alls ekki alltaf sammála í pólitík). Hann þekkir nú kappann alveg ágætlega og líkar afskaplega vel við hann sem manneskju en þetta þótti hvorugu okkar góður leikur hjá Össuri.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 22:24

2 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Af hverju má Össur ekki segja hvað honum finnst?

Á hann að segja hvað hinir vilja heyra?

Skil þetta ekki alveg Pétur ?

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 29.4.2007 kl. 22:26

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Auðvitað má hann segja hvað sem honum finnst Guðrún, en það er alltaf verra finnst mér þegar menn eru staðnir að því að leggja annan mælikvarða á mál annarra en þeir leggja á sín eigin, og það á ekki síst við í þessu máli. Anna: ég þekki Össur líka og kann ljómandi vel við hann, skemmtilegur viðmælandi og hlýr maður, en það er eitthvað við hann sem pólitíkus ... einhver nefndi vindhana í því sambandi.

Pétur Gunnarsson, 29.4.2007 kl. 22:30

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Mér þykir vænt um Össur. Hann er oft svolítið hvatvís. Segja má jafnframt að honum leyfist ýmislegt sem öðrum leyfist ekki. En þetta fannst mér dálítið slæmt hjá honum, minnugur þeirra dæma beggja sem þú nefnir, Pétur.

Hlynur Þór Magnússon, 29.4.2007 kl. 22:30

5 identicon

Mjög góðir punktar hjá þér Pétur!

Maður þarf svo sannarlega að vera á verði gagnvart"óprúttnum" í kosningabaráttu nú til dags!

Þessi "gjörningur" Össurar var siðlaus að mínu mati!

Sigrúnb Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 22:55

6 Smámynd: Jón Sigurður

Það er auðvitað meginmunur á þessum tveimur málum.

Ef satt er þá hefur tengdadóttir fengið ríkisborgararétt framhjá öllum venjum eingöngu vegna þess að hún er rétt tengd.

Í máli Össurar þá virðist sem Davíð hafi hjálpað til við að leysa eitthvað vandamál. Ef þú hefur einhverjar sannanir um að Davíð Oddsson hafi í því tilviki hagað sér á ólögmætan eða utan venju þá endilega komdu fram með það.

Annars er þetta bara persónulegur vinagreiði milli Össurar og Daviðs.

Jón Sigurður, 29.4.2007 kl. 23:26

7 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Þetta snýst ekki um að Davíð hafi hagað sér á ólögmætan hátt en ætli allir hafi átt jafnan rétt og aðgang að þeirri fyrirgreiðslu hans í nafni íslenska ríkisins sem Össur segist hafa notið? Og forsendur þínar standast ekki að þessu leyti: 1. það hefur einmitt ekki veirð sýnt fram á að tengdadóttir hafi fengið "ríkisborgararétt skv öllum venjum" - þvert á móti var farin lögleg leið, sýnist þú þurfa að kynna þér fyrirliggjandi staðreyndir málsins betur ekki síst það að veiting alþingis á ríkisborgararétti er eingöngu fyrir þá sem hafa fengið höfnun eftir eðlilegum leiðum og 30% þeirra sem hlotið hafa eru með skemmri dvöl en 2 ár í landinu. Og forsætisráðherra getur ekki gert persónulega vinargreiða í samskipti við önnur ríki nema í krafti þess að hann er forsætisráðherra.

Pétur Gunnarsson, 29.4.2007 kl. 23:32

8 Smámynd: AK-72

Ef það er rétt sem ég hef lesið annars staðar, þá var það nú þannig að Össur var í vandræðum vegna einhvers þingmáls sem hann þurfti að vera hér á landi í tengslum við á sama tíma og hann þurfti að fara út til Kólumbíu vegna ættleiðingarinnar. Hann talaði við Davíð sem sagði honum að fara bara og hann myndi sjá um málið sjálfur á meðan.

Mér finnst það frekar ólíkt Jónínu-málinu því í máli Jónínu er grunur um spillingu og í það minnsta sérkennileg vinnubrögð nefndarinnar sem skuldar öllum þeim sem hafa gengið í gegnum þetta ferli og verið hafnað, jafnvel þó þeir eigi börn eða ættingja hér á landi, greinargóða skýringu á því hvers vegna einn fremur en þau, á að stökkva framfyrir röðina.

AK-72, 29.4.2007 kl. 23:35

9 identicon

Guð sé lof fyrir menn eins og þig Pétur sem verða vonandi til að tækifærissinnar í kosningabaráttu hugsa sig tvisvar um næst.  Við skulum sjá hvernig honum gengur að krafla sig upp úr þessari holu.

Skúli (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 23:39

10 Smámynd: Pétur Gunnarsson

18 manns af um 30 sem sóttu um til allsherjarnefndar stukku framfyrir röðina enda gera lög ráð fyrir að fólk sem ekki uppfyllir skilyrði um 7 ára búsetu geti sótt til allsherjarnefndar og 2svar á ári hverju eru og hafa verið áratugum saman samþykkt lög um að veita slíkum einstaklingum ríkisborgararétt. Þar er bara um að ræða fólk sem ekki uppfyllir skilyrði en fær undanþágur.

Það er rangt hjá þér að Össur sé að vísa þarna til þess að hann hafi fengið leyfi frá störfum hann var að þakka fyrir greiða þegar málið hljóp í einhvern hnút. Síðan hans er hins vegar niðri og erfitt að finna þetta núna nákvæmlega.

Pétur Gunnarsson, 29.4.2007 kl. 23:42

11 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Og AK-47 það er rétt hjá þér að að svo miklu leyti sem spurningum er ósvarað snúa þær að allsherjarnefndinni sem tók ákvörðunina, hennar er þá spillingin ekki satt? 

Pétur Gunnarsson, 29.4.2007 kl. 23:45

12 identicon

Allir sem lættleitt hafa börn erlendis frá, hafa lent í ótrúlegum hindrunum og skriffinnsku í viðkomandi löndum og hafa margir fengið aðstoð hjá ráðamönnum okkar í þeim málum. Mér finnst það ótrúleg ósvífni hjá þér Pétur að bera þessi mál saman með þessum hætti. En af hverju er Guðjón Ólafur, sem þekkti heimilishagi Jónínar, alveg stikkfrí í þessu máli? Ég hef hvergi heyrt viðtal við hann út af þessu. En ég hef heyrt nokkrar féttastofur segja að ekki hafi náðst í hann.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 23:56

13 identicon

Þakka þér fyrir að geta máls á þessu Pétur.

Þarna hefur Össur [i]"Ég er á móti sérmeðferðum"[/i] Skarphéðinsson skotið sig illilega í fótinn. 

Í ljósi þeirrar sérmeðferðar sem hann fékk frá forsætisráðherra þá má ætla að annað hvort sé Össur með minni á við gullfisk eða hræsnari.

Kalli (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 23:58

14 identicon

Af hverju eru ekki aðstæður þeirra 18 sem stukku fram fyrir röðina gerðar opinberar svo hægt sé að bera þær saman? Það myndi ábyggilega skýra margt.  Ef aðstæður einhverra eru svipaðar og margumræddu stúlku þá er hugsanlegt að hægt sé að taka þremeningana trúanlega en ef ekki þá fara að renna á mann tvær grímur um að einhver sé að skrökva, jafnvel ráðherrann.

Guðmundur Guðlaugsson (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 00:34

15 identicon

Hve margir af þessum 18 voru undir 18 ára aldri? Eru rökin "hann fékk einu sinni sérmeðferð og þess vegna ætti hann að þegja" ekki þunn og ættuð úr samtryggingarkerfinu?

Hólshreppur (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 00:42

16 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Mér telst til að 3 þeirra séu undir 18 ára aldri. Einn 19, og ekki þekki ég neinn íþróttamann þarna. Þannig að Kolbrún Halldórs áheyrnarfulltrúi hefur greinilega ekki hlustað vel, en Ögmundur þeim mun betur á hana.

Gestur Guðjónsson, 30.4.2007 kl. 00:50

17 identicon

Eins og Svavar segir hér að ofan þá hafa margir, sem hafa staðið í því að ættleiða börn erlendis frá og lent í klemmu vegna skriffinsku erlendis, fengið aðstoð ráðamanna við að leysa úr því. Þar með er ekki hægt að tala um aðstoð Davíðs við Össur, sem sérmeðferð enda hafa margir aðrir fengið slíka aðstoð. Framsóknarmenn eru mikið að klifa á því að 30% þeirra, sem hafa fengið ríkisboragarétt hjá alsherjarnefnd hafi verið búnir að búa hér í minna en tvö ár. Þeir sleppa hins vegar alveg að minnast á það að þetta eru fyrst og fremst börn íslenskra ríkisborgara og afreksíþróttamenn. Svo er dæmi Bobby Fishers þar, sem ástæðan var mannúðarmál enda ljóst að dvalarleyfi af mannúðarástæðum dygði ekki til vegna þess að japönsk stjórnvöld neituðu að láta hann lausan út á slíkt. Það kom skýrt fram hjá þeim að ekkert annað en ríkiborgararéttur dygði til. Það virðist gæta einhvers misskilnings hér að allir, sem fái ríkisborgararétt frá Alþingi eftir tillögu allsherjarnefndar og þar með þeir 17, sem fengu ríkisborgararétt samhliða tengdardóttur Jónínu hefðu allir búið hér skemur en í sjö ár. Það er ekki rétt. Þetta er fólk, sem hefur ekki uppfyllt eitthvert af þeim skilyrðum, sem tiltekin eru í lögum um ríkisborgararétt og hafa þess vegna fengið synjun frá dómsmálaráðuneyti. Sjö ára búsetan er aðeins eitt þessara skilyrða.  Eins og fram kom í upphafi hjá Helga Seljan er þarna í mörgum tilfellum um að ræða fólk, sem lent hefur í veikidum og þess vegna þurft að leita aðstoðar félagsmálastofnunar í sínu sveitafélagi. Eitt af skilyrðum fyrir ríkisborgararétti er einmitt það að hafa ekki þáð félagsaðstoð og er því skilyði ætlað að minnka líkur á að innflytjendur leggist upp á kerfið hjá okkur. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki heimild til að horfa framhá þessu skilyrði þegar um veikindi er að ræða heldur aðeins Alþingi. Mál tengdardóttur Jónínu er því einstakakt af því er best verður séð. Það hefur allavega engin getað sýnt fram á sambærilegt mál enda vandséð hvaða sérstakar ástæður gætu mögulega réttlætt þennan gjörning allsherjarnefndar þegar borin eru saman önnur mál, sem hefur verið hafnað. Hafi þessari konu stafað ógn af því að fara aftur heim þá hefði dvalarelyfi af mannúðarástæðum alveg dugað. Það er því flest, sem bendir til að það eitt hafi verið svona sérstakt við mál hennar var að tengdarmóðir hennar er ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Sigurður M. Grétarsson (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 09:57

18 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Tvennt, Sigurður. 1. Staðhæfing þín um mál Össurar og Davíðs er að engu hafandi nema þú sért með samanburðardæmi. 2. Heimildin fyrir því að afgreiða með lögum að tillögu allsherjarnefndar ríkisborgararétt til einstaklinga byggist beinlínis á því að viðkomandi uppfylli ekki þau skilyrði sem ákveðin eru í lögum um 7 ára búsetu. Þetta er ívilnun sem aðeins er möguleg eftir að sótt hefur verið um til stjórnsýslunnar og synjun fengin þar, ef ég hef skilið rétt. Það sem er einstakt við þetta mál er fyrst og fremst hve illa RÚV vandaði til vinnunnar við fréttarinnar og lét undir höfuð leggjast að tala við allsherjarnefndarmenn um málið áður en fréttin var send í loftið.

Pétur Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 10:09

19 Smámynd: AK-72

Ég fann þetta annars staðar og eru víst úr bloggi Össurar frá þeim degi er Davíð hætti.


"Úr persónulegum samskiptum okkar er mér það minnistæðast þegar mér bárust þau tíðindi að eftir fjögurra ára bið ætti ég litla telpu út í Kolombíu sem beið eftir nýjum foreldrum. Ég varð að halda þegar af stað út í heim. Fjárlög voru þá í uppsiglingu og ég átti í átökum innan ríkisstjórnarinnar um frumvarp um 2-3 milljarða styrki til fráveitna sveitarfélaga sem var ákaflega mikilvægt - og sat gikkfast í fjármálaráðuneytinu.

Ég fór til Davíðs og sagði honum tíðindin og ég yrði að fara úr miðjum fjárlagaundirbúningnum strax daginn eftir og hefði áhyggjur af afdrifum málsins. Davíð stóð upp og óskaði mér innilega til hamingju með þennan mikla áfanga í mínu persónulega lífi og sagði ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af málum míns ráðuneytis - hann sæi um það og gott betur. Svo gaf hann mér nokkur góð ráð um hvernig ætti að ala upp barn einsog hans var von og vísa. Friðrik Sophusson sagði seinna að ekkert barn hefði kostað ríkissjóð eins mikið! Síðan hef ég alltaf sent Davíð mynd af þeirri stelpu - og seinna annarri til - á hverjum jólum."

Ef þetta var eini greiðinn sem Davíð gerði fyrir hann, fellur þetta ekki um sjálft sig? Og fyrst maður minnist á Davíð, er þetta ekki farið að verða frekar smjörklípulegt?

Annars varðandi spurninguna til mín, þá finnst mér þáttur allsherjarnefndarinnar kannski stærri og grunsamlegri en Jónínu þar sem ákvörðuðin lítur út fyrir að vera á skjön við fyrir ákvarðanir. Nefndin þarf að hreinsa fyrir sínum dyrum og útskýra málið á sannfærandi hátt en ekki með vegg minnisleysis eða loðinna svara. Svo í framhaldi þá þarf að taka í gegn verklagsreglur hennar í það minnsta.

Eitt að lokum í tengslum við þetta mál, þá er það eitt sem mér finnst aðeins veikja málstað Jónínu. Hún hefur viðurkennt að hafa aðstoðað stúlkuna í upphafi sem er hið besta mál og ekkert að því, en á Alþingi greiddi hún atkvæði um ríkisborgararétt, fullvitandi að þar væri manneskja sem hún tengdist náið, sem ég set siðferðislega spurningu við hvort sé rétt af henni.

Hefði hún setið hjá eða beðist undan þá léki engin vafi hjá mér um að þetta væri ekki neitt, en ef hún kom aðeins nálægt upphafi og svo að lokum endi málsins, gæti hún þá ekki alveg eins hafa komið nálægt miðkaflinum í allsherjarnefnd? 

AK-72, 30.4.2007 kl. 10:16

20 Smámynd: Pétur Gunnarsson

AK-72, það er svo mikil rútína að ráðherrar fari burt jafnvel úr fjárlagaundirbúningi að ég trúi því ekki að vísað sé til þess með þessum orðum: Hann hefði meira að segja reynst henni vel þegar hún var ómálga barn útí Kolombíu og við lentum í klemmu. Síða Össurar er niðri og ekki hægt að finna allt sem fram er komið um þetta mál en ég er viss um að þessi "greiði" við Össur getur ekki verið það sem hann er að vísa til af því að það er ekkert nýtt og varla sérstakt að ráðherrar séu fjarstaddir af einkaástæðum á ýmsu stigi  fjárlagaunbúnings. þetta segi ég hafandi unnið í 2 ár hjá þingflokki í ríkisstjórn.

En um þátttöku Jónínu í atkvæðagreiðslunni tek ég undir að það er umdeilanlegasti þáttur málsins varðandi það sem að henni snýr, um það hef ég tjáð mig í athugasemd nr. 27 hér og vísa í það

Pétur Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 10:29

21 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Baldur, ef menn vilja álykta frá þeim staðreyndum sem fyrir liggja þá neitar jónína að hafa beitt sér ggv nefndarmönnum og nefndarmenn úr þremur flokkum neita því að hún hafi beitt sér ggv þeim. Annað liggur ekki fyrir, þá er væntanlega spurningin hvort þeir sem bera fram ásakanir beri sönnunarbyrðina eða sá sem sakaður er og ef sá sem sakaður er er saklaus hvað getur hann meira gert til að sýna fram á sakleysi sitt? 

Pétur Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 11:33

22 identicon

Péturn Gunnrsson. Hér koma viðbrögð við númeruðu athugasemdunum þínum. 1. Þarna var ég að vísa til orða Svafars hér að ofan, sem sumir virðast ekki hafa lesið. Einnig minnist ég margra viðtala í fjölmiðlum í gegnum tíðina þar, sem Íslendingar í vandræðum erlendis hafi notið aðstoðar frá ráðamönnum án þess að muna einstök nöfn. Einnig hefur AK-72 sýnd fram á það að væntanelga er það, sem Össur hefur verið að vísa til alls ekki greiði í þessa veru heldur aðeins greiði vinnuflélaga, sem hjálpar til við að vinna vinnu manns, sem þarf að fara frá í langan tíma. Þú vísar sjálfur til þess að það sér rúína hjá ráðamönnum að fara úr landi og er það rétt en þeir fara ekki oft úr landi í miðri fjárlagagerð í eins langan tíma og þarf til að ná í ættleitt barn frá öðru landi. Það er ekki skroppið yfir helgi til að gera slíkt. 2. Hvar hefur þú fundið reglur um það að alsherjarnefnd fjalli aðeins um mál þeirra, sem hafa fengið synjun frá stjórnsýslunni á umsókn um ríkisborgararétt vegna of skammrar búsetu en ekki mál þeirra, sem hafa fengið sambærilega synjun vegna annarra skilyrða fyrir búseturétti eins og því skilyðri að hafa ekki þegið félagsaðstoð frá sveitafélagi. Hvað varðar annað frá þér. Það liggur fyrir að þessi kona fékk ríkisborgararétt frá alsherjarnend þó aðstæður hennar virðist ekki á nokkurn hátt vera sambærilegar aðstæðum annarra, sem hafa fengið ríkisborgararétt eftir þetta skamman tíma. Það hafa nokkrir fyrrum nefndarmenn úr alsherjarnefnd komið fram á sjónarsviðið og sagt að þeir kannist ekki við önnur tilfelli en tilfelli barna íslenskra ríksborgara og afreksíþróttamanna fyrr utan mál Bobby Fishers. Þetta mál viriðist því ekk eiga sér neina hliðstæðu í öðrum tilfellum, sem ríksiborgararéttur hefur verið samþykktur. Þvert á móti hafa komið upp mál fólks, sem að því er virðist hefur verið í mun verri stöðu en þessi kona en samt fengið synjun. Gleymum því ekki að 18 manns fengu synjun í þessari sömu afgreiðslu. Þegar upp kemur mál þar, sem manneskja hefur fengið afgreiðslu, sem virðis vera án hliðstæðu, og að sú sama manneskja er tengdardóttir ráðherra í ríksistjórn Íslands er von að fólk spyrji hverju sæti. Sérstaklega aðrir, sem fengið hafa synjun. Ef fjölmiðlar hefðu ekki greint frá þessu hefðu þeir verið að bregðast skyldu sinni við almenning.  Hvernig sem á þetta mál er litið er megn skítalykt af þessu máli. Menn hafa hins vegar engar sannanir fyrir því að skítur sé til staðar enda málið lokað af persónuverndarástæðum. Ef við myndum láta alla, sem misnota aðstöðu sína geta skýlt sér á bakvið slíkt gætu menn haldið slíkri misnotkun áfram án þess að eiga á hættu að þurfa að standa fyrir máli sínu. Auðvita er hætta á því að þegar raunerulega er um málefnanlegar ástæður að ræða verði menn fyrir ómakelgum aðdróttunum en þá hafa menn alltaf þann möguleika í stöðunni að upplýsa um þessar málefnanlegu ástæður og loka þannig málinu.  Við skulum einnig muna það að Jónína greiddi sjálf atkvæði með þessari afgreiðslu á þingi þrátt fyrir tengsls sín við konuna og það sýnir svo ekki sé um villst að siðferði hennar í sambandi við þetta mál er ekki á háu plani. Það skapar síðan grumsemdir um að eins sé um annað tengt þessu máli hvað hana varðar. 

Sigurður M. Grétarsson (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 12:08

23 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Sigurður, ég hef enga athugasemd gert við að fjölmiðlar hafi talið þetta frétt, en fundið að því að fréttin hafi farið út hálfunnin, þ.e. að sjónarmið allsherjarnefndar hafi ekki legið fyrir. Ég hef þann skilning á umræðunni að enginn komist til meðferðar hjá allsherjarnefnd nema hafa áður fengið synjun hjá ráðuneyti og útlendingastofnun. En ef það er skítur til staðar eins og þú segir er hann þá hjá Jónínu eða allsherjarnefndinni? Og: hvað hefur þú fyrir þér í því að aðstæður þessarar stúlku hafi ekki á nokkurn hátt verið sambærilegar aðstæðum annarra sem fengu borgararétt með sömu löggjöf og/eða að þær hafi á einhvern hátt verið betri en aðstæður þeirra sem fengu synjun? Á hvaða upplýsingum er sú staðhæfing þín byggð? Ég get svo tekið undir það að það væri æskilegt að nefndin tjáði sig nánar um þær málefnalegu ástæður sem hún leggur til grundvallar við afgreiðslu þessara mála. Varðandi Össur er það ekki rétt að þetta hafi verið vegna þess að hann fékk að fara til Kólumbíu þegar fjárlagaundirbúningur stóð sem hæst, það vita allir sem þekkja til starfa á þeim vettvangi að það er ekkert sérstakt við það og enginn frásagnarverður greiði. Ég er að vinna í að finna þessar upplýsingar en ég held að tilfellið sé að það hafi í raun verið Davíð sem opnaði/greiddi leið í  samningum við kólumbísk stjórnvöld til ættleiðingar frá Íslandi, ég segi ekki að það sé athugavert kannski meira að segja lofsvert en það var fyrirgreiðsla sem aðrir höfðu ekki átt aðgang að í fortíðinni og og privilegium Össurar að njóta hennar í sínu persónulega máli, fyrst Össur er farinn að tala á þessum nótum finnst mér rétt að þetta liggi fyrir og einnig að halda til haga fyrri ummælum hans um skyld mál.

Pétur Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 13:21

24 Smámynd: Jón Sigurður

Pétur. Ef ég skil þig rétt þá færðu þetta út:

"Önnur skýringin er sú að Össur hefur þráfaldlega stært sig af því að hafa notið sértakrar fyrirgreiðslu af hálfu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, þegar hann var að ættleiða dóttur sína frá Kólumbíu" eingöngu úr þessum orðum Össurar:

"Ég tók á allri minni rökfræðilegu snilld til að skýra út fyrir barninu að hann væri alls ekki vondur maður nema síður væri. Hann hefði meira að segja reynst henni vel þegar hún var ómálga barn útí Kolombíu og við lentum í klemmu."

Þú ályktar sjálfkrafa frá orðunum um að Davíð hafi reynst vel í einhverri klemmu að Össur hafi fengið einhverja óeðlilega og óvanalega fyrirgreiðslu frá forsætisráðherra sem aðrir geta ekki fengið.

Þú hlýtur að hafa eitthvað meira fyrir þér, ef ekki þá ert þú síður en svo hæfan um að gagnrýna vinnubrögð Helga Seljan. Sérstaklega ef þín vinnubrögð eru svona slæm.

Eins og t.d. með fyllerísrausið um fund Geirs og Steingríms sem þú póstaðir hér sem heilögum sannleik.

Jón Sigurður, 30.4.2007 kl. 13:25

25 identicon

Pétur. Ég hef líka þann skilning að fyrst þurfi menn að hafa fengið synjun hjá Dómsmálaráðuneyti áður en menn geta farið með sitt mál til alsherjarnefndar. Þó má vera að það sé ragnt. Þú hélst því hins vegar fram áðan að alsherjarnefnd tæki aðeins að sér mál þar, sem viðkonandi hefði fengið synjun frá Dómsmálaráðuneyti vegna of skamms búsetutíma en ekki ef synjunin er vegna þess að einhver önnur skilyrði séu ekki uppfyllt eins og til dæmis skilyriðið um að hafa ekki þegið félagsaðstoð sveitafélags. Það er þvert á það, sem Helgi Seljan sagði í sínum þætti að stór hluti hinna 17 einstaklinganna, sem fengu saþykkt sína umsókn, hafi einmitt fengið synjun frá Dómsmálaráðuneytinu út af því skilyrði.

 Það, sem ég hef fyrir mér í því að þetta mál sé ekki sambærilegt við nein önnur mál, sem hafa verið samþykkt eru upplýsingar frá öðrum, sem hafa setið í þessari nefnd, sem hafa sagt að meðan þeir voru í nefndinni hafi aldrei verið litið framhjá búsetureglunni nema þegar um var að ræða afreksíþróttramenn, börn íslenskra ríkisborgara og aðila, sem áður hafa haft íslenskan ríkisborgararétt en þurft að afsala sér honum þegar þeir fengu annan ríkisborgararétt. Ekkert af þessu á við í máli tengdardóttur Jónínu Bjartmars. Reyndar er mál Bobby Fishers einnig frábrugðið en þá var um að ræða mannúðarsjónamið enda ljóst að dvalarleyfi af mannúðarástæðum dygði ekki til.

Sigurður M. Grétarsson (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 15:24

26 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Sigurður: ég kannast ekki við að hafa haldið því fram allsherjarnefnd taki aðeins mál sem er synjað vegn aof skamms tíma. Ég hef ekki næga þekkingu á þessu máli eða vinnubrögðum allsherjarnefndar til þess að hrekja þessa fullyrðingu þína:  "Það, sem ég hef fyrir mér í því að þetta mál sé ekki sambærilegt við nein önnur mál, sem hafa verið samþykkt eru upplýsingar frá öðrum, sem hafa setið í þessari nefnd, sem hafa sagt að meðan þeir voru í nefndinni hafi aldrei verið litið framhjá búsetureglunni.".. þá staðhæfingu hef ég ekki séð áður og þetta eru upplýsingar sem ég bý ekki yfir. Það sem ég byggi mál mitt á í þessum skoðanaskiptum er það sem hefur komið fram í fjölmiðlum og það sem hefur ekki komið fram í fjölmiðlum.

Jón Sigurður:  ég er búinn að segja frá því að Össur hefur fjallað um þetta mál víðar og oftar en í þessari einu færslu, ég er ekki að álykta út frá þessu færslu heldur öðru sem ég og fleiri minnumst að hafa lesið eftir honum haft, þarna er hann einungis að rifja upp fyrir 2 árum atburði sem gerðust fyrir mun lengri tíma. Síðan hans er niðri og ekki auðvelt að lesa, sýndu smábiðlund og sparaðu stóðu orðin í bili, ég vonast til að geta fyllt betur út í þetta fljótlega.

Pétur Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 16:12

27 identicon

Bæði Ögmundurn Jónasson og Össur Skarphéðinsson sögðu það báðir í Silfri Egils að þetta mál væri einsdæmi miðað við það, sem hafi verið meðan þeir voru í nefndinni. Helgi Seljan sagði það líka þegar hann var með Jónínu í viðtali að svona væri þetta samkvæmt hans heimildum. Það hafa aðeins verið talin upp þessar þrjár ástæður, sem hafi leitt til þess að horft hafi verið framhjá búsetureglunni. Ef einhver sambærileg dæmi væru til hefði það verið auðvelt hjá Framsókarmönnum að finna þau og nefna hvaða ár hefði verið horft framhjá þessari reglu af einhverri annarri ástæðu eða sagt hversu oft það hafi verið gert á ákveðnu tímabili án þess að rjúfa nokkurn trúnað. Það hafa þeir ekki gert og væntanlega vegna þess að þeir hafa ekki nein slík dæmi til að vísa til.

Sigurður M. Grétarsson (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 18:57

28 Smámynd: Karl Hjörvar

Ertu búinn að grafa upp eitthvað ítarlegra um fyrirgreiðslu Davíðs í Kólombíu?

Karl Hjörvar, 2.5.2007 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband